Erlent

Gamlir hermenn vernd nýja stjórn

Hundruð gamalla sómalskra lögreglu- og hermanna hétu því að vernda nýja stjórn landsins og þing og gera sitt til að koma á lögum og reglu í landi sem hefur verið stjórnlaust í meira en áratug. Mennirnir sögðust reiðubúnir að vinna kauplaust ef stjórn og þing styddu við bakið á þeim þegar þau væru komin til valda. Mennirnir voru mættir í búningum sínum til að taka á móti hópi 30 þingmanna þegar þeir sneru aftur til Sómalíu og bjuggu sig undir að taka til starfa. Mörg ár eru liðin síðan lögregla og her störfuðu í Sómalíu. Þar hafa vígasveitir stríðsherra ráðið lögum og lofum frá því einræðisherrann Mohamed Siad Barre hrökklaðist frá völdum 1991. Lögreglu- og hermennirnir sögðust gera sér grein fyrir því að það væri ekki auðvelt að takast á við vopnaðar sveitir ungmenna. "Við vitum að við erum gamlir en við vitum hvað við erum að gera og búum að mikilli reynslu," sagði Mohamed Nor Galal, fyrrum herforingi sem situr á nýja þingi landsins. Hann fór fyrir lögreglumönnum. Tilraunin sem nú er gerð til að koma á lögum og reglu í Sómalíu er sú fjórtánda í röðinni. Hinar hafa allar brugðist, þar á meðal myndun tveggja stjórna. Nýja þingið og ríkisstjórnin voru mynduð á friðarráðstefnu í Nairóbí, höfuðborg Kenía. Þingmennirnir 30 sem komu til Mogadishu, höfuðborgar Sómalíu, á dögunum voru fyrstu meðlimir þings og stjórnar til að koma til Sómalíu eftir myndun þings og stjórnar í fyrra. Þeir voru umkringdir vopnuðum vörðum tilbúnum til átaka við vígasveitir stríðsherra. Enda kom í ljós að full þörf var á vernd því bardagar geisuðu í höfuðborginni meðan þingmenn skoðuðu hana. Þó miklar vonir séu bundnar við stjórnina er ljóst að mikið verk er óunnið. Vígasveitir stríðsherra og glæpaklíkur fara sínu fram, eigna sér svæði, ræna fólk og setja upp vegatálma þar sem þeir heimta toll af þeim sem fara um.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×