Lífið

Keflavíkurbær í Stjörnuleit

Þemað í Idol stjörnuleit í kvöld er Keflavík eða lög eftir tónlistarmenn frá Bítlabænum sjálfum. Gestadómari kvöldsins verður enginn annar en Rúnar Júlíusson. Mörgum þótti krakkarnir eiga erfitt með lög Sálarinnar í síðasta þætti svo það verður spennandi að sjá hvernig þeim tekst að fara með Keflavíkursmellina. "Ég held að krakkarnir ættu að ná flestum lögunum frá Keflavík," segir Jóhann Helgason höfundur tveggja laga sem tekin verða í kvöld og fyrrverandi meðlimur dúettsins Þú og Ég. "Þetta er samt mjög viðkvæmt mál því ef söngvari velur vitlaust lag þá virkar það ekki, sama hversu góður söngvarinn er. Það er flestum ómögulegt að fara út fyrir sitt sérsvið og ekkert skrítið að fólk sem er að byrja í tónlist hafi ekki þroska til þess að átta sig á því hvað passar. Þetta er eins og að velja sér föt; þó þau sýnist vera flott þá þarf ekkert að vera að þau passi á manneskjuna." segir Jóhann sem veitti því athygli hversu illa keppendum gekk í síðasta þætti að fara með lög Sálarinnar. "Já þetta sást greinilega í síðasta þætti. Stebbi er náttúrlega mjög góður söngvari og getur sungið bæði niðri og hátt uppi. Það eru ansi fáir sem ná háu tónunum og því voru mörg lögin of djúp. Það er lykilatriði fyrir söngvara að velja rétt lag því annars getur hinn fínasti söngvari eða jafnvel sá besti sungið sig út úr keppninni. Það er samt eitthvað af hæfileikaríku fólki þarna og þau ættu vel að geta ráðið við þessi lög," segir Jóhann bjartsýnn fyrir hönd keppenda.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.