Sport

Kikkbox ekki á Ólympíuleikunum

Íslendingar keppa ekki í kikkboxi á Ólympíuleikunum árið 2008 og ekki verður keppt í greininni yfirhöfuð að sögn framkvæmdastjóra ÍSÍ. Maður sem skipuleggur námskeið í kikkboxi fyrir fimm ára börn hélt þessu fram í fréttum Stöðvar 2 í gær til að réttlæta að litlum börnum væri kennd þessi íþrótt.  Í fréttinni í gær var sagt frá því að börnum allt niður í fimm ára aldur biðist nú að fara á námskeið í kikkboxi hér á landi. Jimmy Routley, sem er skipuleggjandi námskeiðsins, sagði kikkboxið veita börnum aga og ekkert væri athugavert við að börn byrjuðu snemma í greininni. Þá fullyrti hann að keppt yrði í greininni á næstu Ólympíuleikum og að Íslendingar myndu keppa í greininni þar. Þetta er algerlega úr lausu lofti gripið, segir Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íþróttasambands Íslands. Greinin hafi ekki verið samþykkt hér á landi og í henni verði ekki einu sinni keppt yfir höfuð á leikunum árið 2008. Aðspurður segir Stefán að ekki sé uppi á borðum hjá ÍSÍ að taka kikkbox inn sem eina af þeim íþróttagreinum sem stundaðar eru innan sambandsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×