Erlent

Hundruð við útför Ziyangs

Hundruð voru í morgun við útför Zhaos Ziyangs sem var formaður kínverska Kommúnistaflokksins þegar atburðirnir á Torgi hins himneska friðar urðu árið 1989. Fólkið lét ekki lögreglueftirlit hræða sig en ráðamenn óttuðust að útförin yrði tilefni til mótmæla og rósturs. Zhao var einn fárra kínverskra ráðamanna sem taldi rétt að hlusta á lýðræðislegar umbótahugmyndir stúdentanna sem mótmæltu á Torgi hins himneska friðar árið 1989 en aðrir í flokknum vildu taka á þeim af hörku. Hundruð stúdenta voru drepin á torginu í áhlaupi hersins og Zhao féll í ónáð í kjölfarið. Það sem eftir var ævinnar var hann í stofufangelsi. Stjórnvöld höfðu af því miklar áhyggjur að fráfall hans yrði til að vekja minningar um atburðina fyrir 16 árum og gæti leitt til mótmæla. Því voru lögreglubílar á öllum götuhornum í nánd við útförina í morgun og lögreglumenn grandskoðuð skilríki þeirra sem voru viðstaddir en það voru einungis boðsgestir. Þrátt fyrir þetta voru hundruð manna í grennd og minntust Zhaos. Til að dreifa athyglinni frá Zhao var útförin haldin sama dag og fyrsta beina flugið í hálfa öld á milli Kína og Taívan var flogið. Sú ferð var sýnd beint í kínverska sjónvarpinu en aðeins var minnst stuttlega á fráfall Zhaos. Í fréttaskeyti kínversku fréttastofunnar Xinhua var fjallað um jákvæð áhrif Zhaos á efnahagsumbætur í Kína en jafnframt tekið fram að hann hefði gert alvarleg mistök í tengslum við stjórnmálaumrót vorið og sumarið 1989. Ekki er þó farið nánar út í þá sálma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×