Erlent

Óttast eftirhermuglæpi í BNA

Óttast er að Bandaríkjamaður sem reyndi að svipta sig lífi með því að leggja bíl sínum á lestarteina muni valda hrinu eftirhermuglæpa. Eitt tilvik er þegar í skoðun lögreglu. Juan Manuel Alvarez lagði bíl sínum þvert á lestarteina í úthverfi í Los Angeles í Kaliforníuríki á miðvikudaginn. Skömmu áður hafði hann skorið á slagæðar í úlnliðum og stungið sig í brjóstið. Alvarez snerist hins vegar hugur þegar lestin nálgaðist bíl hans og hljóp út úr honum á síðustu stundu. Bíllinn varð eftir á teinunum og olli því að þrjár lestar rákust saman. Ellefu manns létust og 200 slösuðust, þar af fjörutíu alvarlega. Alvarez situr í haldi lögreglu og hefur verið ákærður fyrir morð að yfirlögðu ráði. Atburðurinn hefur fangað athygli Bandaríkjamanna og eins og oft vill verða þá freistast aðrir vitleysingar til að herma eftir. Í gær reyndi annar Kaliforníubúi að gera það sama og lagði bíl sínum þvert á lestarteina. Hann sá þó að sér á síðustu stundu og ók bíl sínum á brott. Lögreglu hafði þá verið gert viðvart og hafði hún hendur í hári honum eftir eltingarleik. Maðurinn hefur viðurkennt að hafa ætlað að svipta sig lífi með því að láta lest aka yfir bílinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×