Erlent

Linnulausar árásir í Írak

MYND/AP
Einhver hættulegasti vegarkafli heims var eitt skotmarka hryðjuverkamanna í Írak í morgun. Endalausar árásir hafa dunið á hersveitum og óbreyttum borgurum í nótt og í morgun. Vegurinn frá alþjóðaflugvellinum í Bagdad, sem áður hét Saddam-flugvöllur, og inn í bæ er hættulegasti vegspotti í Írak og með þeim verstu í heimi. Klukkustundarlangt ferðalagið kostar fúlgur fjár vegna þeirrar verndar sem veitt er. Fólk er flutt í brynvörðum bílum sem ferðast nokkrir saman á ofsahraða. Þrátt fyrir þessar öryggisráðstafanir og gæslu tókst uppreisnarmönnum í morgun að gera sprengjuárás á herbílalest á veginum. Engar fregnir hafa borist af mannfalli og Bandaríkjaher hefur ekki gefið frá sér frekari upplýsingar. Árásir í Írak eru svo margar á dag að það er nánast eins og upptalning að fara yfir þær allar. Í morgun gerðu uppreisnarmenn árás á skrifstofur þriggja stjórnmálahreyfinga í Bakúba. Þar særðust átta stjórnmálamenn og lögreglumaður féll. Í Kirkúk sprungu tvær bílsprengjur. Fregnir bárust af bardögum milli bandarískra hersveita og uppreisnarmanna í Ramadi. Í Bagdad sprungu tvær sprengjur í nótt í skólum sem nota á sem kjörstaði á sunnudaginn kemur. Hersveitir fundu samtals sex sprengjur í Bagdad og gerðu óvirkar og í Najaf fundu írakskar sveitir tvær sprengjur. Í Mósúl sendu uppreisnarmenn frá sér myndbandsupptöku með þremur Írökum sem segjast vera starfsmenn kjörstjórnar. Uppreisnarmenn segja kosningarnar ekki eiga sér neina stoð í íslömskum sið og því sé réttmætt að gera árásir á allt sem þeim tengist. Bráðabirgðastjórn Íraks hefur gripið til víðtækra aðgerða til að reyna að sporna við slíkum árásum. Meðal annars verður flugvellinum í Bagdad lokað eins og öllum landamærum, útgöngubönn verða lengd í helstu borgum og umferð bíla verður bönnuð á kjördag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×