Erlent

Þeir látnu jafnmargir Íslendingum

Ljóst þykir að ekki færri en 280 þúsund manns hafi farist þegar flóðbylgjan mikla reið yfir ellefu ríki Asíu og Austur-Afríku á annan dag jóla. Óttast er að tugþúsundir til viðbótar kunni að hafa farist. Til samanburðar má nefna að Íslendingar voru 293 þúsund talsins 1. desember síðastliðinn. Heilbrigðisyfirvöld í Indónesíu birtu í gær nýjar tölur. Samkvæmt þeim hafa meira en 220 þúsund manns látist eða er saknað og taldir af í Indónesíu einni saman. Þar finnast um þúsund lík dag hvern. Þau eru mjög illa farin eftir að hafa legið undir braki og leðju, og því er afar erfitt að bera kennsl á þau. Þá er talið að mikinn fjölda líka hafi borið á haf út og litlar líkur eru á að þau finnist. Einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og stjórnvöld víða um heim hafa heitið háum fjárhæðum til styrktar uppbyggingarstarfi. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hvatti í gær til þess að hluta þess fjár yrði varið til aðstoðar við fólk sem hefur hrakist frá heimilum sínum á Sri Lanka vegna borgarastríðsins þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×