Erlent

Dýrkeypt epli

Bresk kona var í vikunni dæmd til að greiða rúmar sjö þúsund krónur í sekt fyrir að hafa borðað epli undir stýri en neysla matvæla við þessar kringumstæður er litin hornauga á Bretlandseyjum. Málið væri svo sem ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir hið umfangsmikla eftirlit sem að lokum leiddi til þess að upp komst um þennan hræðilega glæp. Dagblaðið The Independent segir frá því að til að góma þessa svöngu konu hafi lögreglan kallað út þyrlu til að elta bifreið hennar og taka af henni loftmyndir en auk þess þurfti að kalla hana alls níu sinnum fyrir rétt. Enda þótt aðgerðin hafi borið þann árangur sem vonast var eftir verður eftirtekjan að teljast rýr því sektin sem innheimtist nam aðeins broti af kostnaðinum við umstangið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×