Erlent

Ný leyniþjónusta undir Rumsfeld

Nýrri leyniþjónustu hefur verið komið á fót innan bandaríska varnarmálaráðuneytisins. Bandarísk lög eru þar túlkuð með nýjum hætti til að veita Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra völd til að skipa fyrir um leyniaðgerðir erlendis. Frá þessu er greint í dagblaðinu Washington Post í dag. Þar kemur fram að Rumsfeld varnarmálaráðherra líki lítt að varnarmálaráðuneytið skuli vera háð leyniþjónustunni CIA um upplýsingar og því hafi hann fyrir tveimur árum fyrirskipað að ný leyniþjónusta skyldi stofnuð innan ráðuneytisins án þess að fá leyfi þings til þess. Fjármunir, sem ætlaðir voru til annarra verka, voru í staðinn settir í nýju leyniþjónustuna til að þurfa ekki að leita til þingsins um fjárveitingar. Það eru einkum svokölluð verðandi skotmörk sem leyniþjónusta varnarmálaráðuneytisins beinir athygli sinni að, en það eru meðal annars Sómalía, Jemen, Indónesía, Filippseyjar og Georgía, samkvæmt Washington Post. Starfsmenn þjónustunnar safna upplýsingum á vettvangi og ráða erlenda njósnara í vinnu, en í nýlegu minnisblaði varnarmálaráðuneytisins er sagt að meðal nýrra starfsmanna séu alræmdir menn og kæmust tengsl þeirra við bandarísk stjórnvöld í hámæli væri það afar vandræðalegt. Innan varnarmálaráðuneytisins er stefnt að því að leyniþjónustan vaxi enn frekar og að komið verði á þjálfunarbúðum þannig að í raun verði komið á samkeppni við CIA.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×