Erlent

Da Vinci freskur finnast

Löngu týnd vinnustofa og íbúð lista- og uppfinningamannsins Leonardos da Vincis er fundin í Flórens á Ítalíu. Þar eru meðal annars freskur eftir da Vinci sem enginn vissi að væru til. Það geta líklega flestir verið sammála um að Leonardo da Vinci hafi verið einn af mestu listamönnum og uppfinningamönnum sögunnar. Það er því engin furða þótt Ítalir séu uppnumdir yfir þessum fundi. Það voru tveir listfræðingar og arkitektar sem fundu húsnæðið sem er sambland af vinnustofu og íbúð í hinu helga Boðunarklaustri í Flórens en klaustrið er helgað boðunardegi Maríu meyjar. Ítalirnir fundu stigagang sem liggur frá klaustrinu og upp í vinnustofuna en stigaganginum hafði verið lokað við endurbyggingu klausturins einhverntíma fyrr á öldum. Það kann að virðast undarlegt í dag að nokkrum skyldi detta í hug að loka fyrir vinnustofu Leonardos da Vincis. Þá ber að hafa í huga að da Vinci var uppi á árunum 1452 til 1519 og var ekki metinn að verðleikum fyrr en löngu eftir sinn dag. Tímans tönn hefur nagað freskur og önnur verk sem eru í vinnustofunnu en ein freskan er sláandi lík Boðuninni, hinu fræga verki da Vincis sem geymt er í Uffici-safninu í Flórens. Robert Maneslachi listfræðingur segir að þarna sjáist í fyrsta sinn fuglar fullir af krafti, dýr sem séu algerlega ljóslifandi og minni okkur á rannsóknir Leonardos á fljúgandi fuglum. Höfundur nýrrar bókar um Mónu Lísu, Gherardini, segir að Leonardo hafi að öllum líkindum hitt hana í kirkju Boðunarklaustursins þar sem fjölskylda eiginmanns hennar, Francescos del Giocondo, átti kapellu. Finnendurnir tveir segja ekki hægt að útiloka að myndin af Mónu Lísu hafi verið máluð í klaustrinu en þeir hafi til þessa ekki fundið neitt sem sanni það. Eins og nærri má geta verða þessi nýfundnu húsakynni meistarans rannsökuð vandlega næstu árin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×