Erlent

Komi í veg fyrir árásir á Ísrael

Mahmoud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar, fyrirskipaði palestínskum öryggissveitum í gær að reyna að koma í veg fyrir árásir á Ísrael. Hann fyrirskipaði þeim einnig að rannsaka skotárásina á Gaza í síðustu viku sem kostaði sex ísraelska verkamenn lífið. Óvíst er hvaða áhrif fyrirskipun Abbas hefur. Ekkert var gefið út um hvernig öryggissveitirnar ættu að koma í veg fyrir árásir og talsmaður Hamas sagði að samtökin myndu halda áfram árásum á Ísraela. Ofbeldi á Gaza og Vesturbakkanum undanfarna daga hefur dregið úr bjartsýni á að semja megi um frið milli Ísraela og Palestínumanna. Palestínskir vígamenn myrtu sex ísraelska verkamenn í árás á fimmtudag og síðan þá hafa sextán Palestínumenn, níu vígamenn og sjö óbreyttir borgarar, fallið fyrir hendi ísraelskra hermanna. Háttsettur ísraelskur embættismaður sagði í gær að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hefði ákveðið að hefja ekki stórsókn hersins á Gaza-svæðinu. Áður hafði Sharon veitt hernum ótakmarkaða heimild til að skjóta alla vopnaða vígamenn og þá sem skytu eldflaugum að landnemabyggðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×