Innlent

Meiri sala eftir erlenda umfjöllun

Mikil umfjöllun um Ísland erlendis gerir ferðaskrifstofum auðveldara fyrir að selja ferðir til landsins, segir Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri Kynnisferða. Hann segir stöðugt fjölga erlendu ferðafólki sem kjósi að sækja landið heim að vetri til. "Flug hingað hefur aukist og með fleiri ferðamönnum eykst vitanlega allt umfang í ferðaþjónustunni. Svo höfum við orðið vör við töluvert aukinn áhuga og fyrirspurnir út af umræðu um Ísland í Bretlandi, á Norðurlöndunum og svo auðvitað í Ameríku. Það er bæði út af Amazing Race þættinum og svo einnig út af umsvifum í viðskiptalífinu. Svo eru náttúrlega Björk og Eiður Smári," segir hann og telur fólk þekkja betur til landsins en áður var. "Það er auðveldara að selja eitthvað sem fólk hefur heyrt um auk þess sem fólki dettur líka frekar í hug að koma hingað ef landið er í umræðunni," segir hann og telur aukna umræðu um landið helst skila sér í sölu helgarpakka og svo tilboðspakka í miðri viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×