Lífið

Úr svínasúpu í blóðbað

Bandaríski leikstjórinn Eli Roth skemmti sér á Íslandi yfir áramótin en notaði ferðina hingað einnig til þess að ræða við og prófa nokkurn fjölda íslenska leikara fyrir ódýra hryllingsmynd sem hann ætlar að hrista fram úr erminni á þessu ári. Myndin á að heita Hostel og fjallar um þrjá unga menn á pakpokaferðalagi um Evrópu en það vill svo skemmtilega til að einn þeirra er Íslendingur. Sá mun vera mikið partíljón og stuðbolti sem lætur móðan mása um landið sitt og slær að öllum líkindum um sig með alls konar íslenskum orðum á borð við "rjómaskyr", "lambakjöt", "brennivín" og "snípur" sem eru Eli afar hugleikin. Íslendingurinn mun vera ansi áberandi fyrsta þriðjung myndarinnar og á að vera skemmtilegasta persóna hennar. Örlög hans eru þó óljós en"hressi gaurinn" í hryllingsmyndum á það oftar en ekki til að drepast á subbulegan hátt. Ólafur Egill Egilsson, Björn Thors, Björgvin Franz Gíslason og Auðunn Blöndal eru á meðal þeirra sem Eli hitti að máli og mun Auðunn vera mjög líklegur til að hreppa hnossið enda virðist hlutverkið í fljótu bragði henta spaugaranum úr 70 mínútum og Svínasúpunni ákaflega vel. Eli Roth vakti verulega athygli með hryllingsmyndinni Cabin Fever en hann hugmyndina að þessu byrjendaverki sínu fékk hann eftir að hann dvaldi á bænum Ingólfshvoli í nágrenni Selfoss árið 1991. Cabin Fever þótti koma með ferska vinda inn í staðnaðan hryllingsmyndageirann árið 2002 og ekki minni menn en Peter Jackson, David Lynch og Quentin Tarantino hafa lofað Eli í hástert en það er einmitt að undirlagi Tarantinos sem Eli ákvað að drífa sig í að gera Hostel. Eli er með fjölmörg stórverkefni í gangi þar á meðal myndirnar Scavenger Hunt og endurgerð hrollvekjunnar The Bad Seed. Þetta eru stórar stúdíómyndir og hlutirnir í kringum þær gerast því hægt og þar sem Eli leiddist þófið skrifaði hann handritið að Hostel í snarhasti í nóvember og desember. Eftir að Tarantino hafði kíkt á það og hvatt hann til að taka myndina í einum grænum rauk Eli til Prag þar sem hann fann tökustaði og stefnir að því að byrja tökur í febrúar eða mars. Myndin verður gerð fyrir lítinn pening á milli stórverkefna en Eli hefur meðal annars sagt frá því í viðtali við Fréttablaðið að hryllingsmyndir eigi að vera ódýrar. Kraftur þeirra liggi í vanefnunum. Hjólin snúast hratt þegar Eli fer af stað og hann mun að öllum líkindum tilkynna um val á leikara í hlutverk Íslendingsins á næstu vikum enda stefnir hann á að frumsýna Hostel fyrir áramót.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.