Innlent

ÍÚ og Frétt heita nú 365

Íslenska útvarpsfélagið og Frétt hafa fengið ný nöfn: 365 - ljósvakamiðlar og 365 - prentmiðlar. Nýju nöfnin eru liður í samþættingu rekstrar félaganna. Nýtt skipurit var kynnt á starfsmannafundi í morgun og er því ætlað að tryggja sjálfstæði og fjölbreytileika fjölmiðla en sækja styrk í samþættingu rekstrar, markaðs- og sölustarfs.   Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að samhliða þessu hafi framleiðsludeildir 365 - ljósvakamiðla verið klofnar frá öðrum rekstri og um þær stofnað nýtt fyrirtæki, Hvítar myndir. Því er ætlað að sækja fram við gerð sjónvarpsefnis og auglýsinga, atburðarstjórnun og víðar auk þess að sinna framleiðslu fyrir 365. Stefnt er að því að færa starfsemi ljósvakamiðlanna í Skaftahlíð 24 og koma þannig starfseminni allri á einn stað. Í því augnamiði hefur verið lögð fram tillaga fyrir borgarskipulag um breytingar á húsnæðinu í Skaftahlíð. Gangi hún eftir verður öll starfsemi 365 flutt þangað. Þá segir að starfsemi þjónustuvera fjölmiðlanna og OgVodafone verði sameinuð í nýju og öflugu þjónustuveri undir merkjum OgVodafone frá næstu mánaðamótum. Með því verður til eitt öflugasta þjónustuver landsins, sem sinnt getur fjölbreytilegustu verkefnum.   Fjármálastjórn OgVodafone og 365 verður framvegis sameiginleg og rekstur dreifikerfis ljósvakamiðla verður fluttur til OgVodafone.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×