Innlent

Ekki sama, jólagjöf eða brúðargjöf

Tólf ára stúlka fær ekki jólagjöf frá föður sínum nema greiða tollinum fjórtán þúsund krónur. Hún hefði hins vegar fengið gjöfina án afskipta tollsins ef hann hefði sent hana sem brúðkaupsgjöf. Pabbi Elísabetar Hönnu Dainelsdóttur er bandarískur. Hann sendi henni I-pod í jólagjöf fyrir jólin. Tollurinn fór hins vegar fram á að stúlkan og móðir hennar greiddu 14 þúsund króna toll af jólagjöfinni. Samkvæmt lögum eru gjafir undanþegnar tollum en þær mega ekki kosta hvað sem er. Sigurður Skúli Bergsson, forstöðumaður tollgæslusviðs hjá Tollstjóranum í Reykjavík, segir að ef vara kosti ekki meira en sjö þúsund krónur séu ekki lagðir á hana tollar. Fari hún upp fyrir þá upphæð greiði fólk toll af því sem umfram er. Elísabet og móðir hennar vildu ekki sætta sig við þetta. Elísabet segir að þær hafi sent gjöfina til baka þar sem þær hafi annars þurft að borga 14 þúsund krónur. Hún vilji ekki kaupa jólagjöfina sína. Elísabet er eðlilega leið yfir því að þurfa að sjá á bak gjöfinni aftur til Bandaríkjanna. Hún hafi hlakka til að fá hana síðan á jólunum en ekkert sé hægt að gera við þessu. Það kaldhæðnislega er hins vegar að samkvæmt lagabókstafnum hefði Elísabet ekki þurft að greiða neina tolla af gjöfinni ef þetta hefði verið brúðkaupsgjöf. Sigurður Skúli segir ekki miðað við ákveðna fjárhæð í þeim efnum heldur hvað teljist hæfilegt. Hann þekki ekki nákvæmlega sjónarmiðin sem liggi að baki reglunum en væntanlega gifti menn sig ekki eins oft og þeir eigi afmæli. Tollurinn leyfði Elísabetu að eiga einn hlut úr jólapakka pabba síns og það var jólakortið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×