Lífið

Harry enn og aftur í vandræðum

Harry Bretaprins situr nú í súpunni, rétt einu sinni. Í þetta skiptið mætti hann með nasistaarmband í partí hjá vinum sínum. Harry er tuttugu ára gamall og hefur oftar en einu sinni lent í vandræðum vegna framkomu sinnar og lífernis. Honum þykir sopinn góður og er vel liðtækur í skemmtanalífi Lundúna. Ekki er langt síðan hann gaf ljósmyndara einn á lúðurinn þegar hann var að koma út af skemmtistað. Prinsinn er hins vegar glaðlyndur og góðviljaður þannig að honum er jafnan fyrirgefið þrátt fyrir mikinn hamagang í fjölmiðlum. Nú þykir hann hins vegar hafa farið verulega yfir strikið með því að mæta í eitt partíið með nasistaarmband. Myndir af því hafa farið eins og eldur í sinu um allan heiminn. Dickie Arbiter, fyrrverandi blaðafulltrúi konungsfjölskyldunnar, segir ótrúlegt að meðlimur í konungsfjölskyldunni, þótt ungur sé, skuli geta verið svona heimskur þrátt fyrir fyrsta flokks menntun. Hann segir fólk stöðugt minnt á það sem hafi gerst fyrir 60 árum í helförinni, ekki sé hægt annað en að vita hvað hafi gerst þar. Samt hafi Harry klætt sig svona, farið í partí og látið mynda sig. Gyðingar hafa tekið þetta óstinnt upp og utanríkisráðherra Ísraels segir framkomu prinsins óskiljanlega og óafsakanlega. Harry hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segist harma það mjög ef hann hafi sært einhvern. Búningsvalið hafi verið einkar óheppilegt og hann biðjist afsökunar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.