Erlent

Fjármunir gufa stundum upp

Fjármunir, sem lofað er vegna náttúruhamfara, eiga það til að gufa upp þegar á reynir, en þetta gerist bæði vegna spillingar og vanefnda. Því hafa íbúar í sumum ríkjum Mið-Ameríku, í Bam í Íran og í Afganistan fengið að kynnast. Þegar hörmungar ganga yfir land bregst alþjóðasamfélagið við með samúð og loforðum um stórfellda aðstoð. Reyndin hefur hins vegar oftast verið sú að peningarnir hverfa um leið og myndatökuvélarnar fara af vettvangi. Fyrir sex árum gekk fellibylurinn Mitch yfir smáríkin í Mið-Ameríku. Níu þúsund manns létu lífið og eignatjón var metið á meira en níu milljarða króna. Á þessum tíma voru þetta mestu náttúruhamfarir aldarinnar og loforð um aðstoð streymdu inn. En þegar líkin höfðu verið grafin og myndavélarnar farnar hurfu peningarnir einnig. Víst var byrjað á uppbyggingarstarfi en það fjaraði smám saman út. Á dögunum heimsóttu fréttamenn New York Times Hondúras og horfðu þar furðu lostnir á hálfbyggt stórt þorp sem átti að vera hluti af viðreisnarstarfinu. Það var búið að byggja þar fjölmörg hús en þau voru bara fokheld. Það átti eftir að leggja í þau rafmagn og skolplagnir, en peningarnir voru búnir þegar að þessum liðum kom. Sömu sögu er að segja í Íran þar sem 40 þúsund manns fórust í jarðskjálfta í borginni Bam í fyrra. Því var heitið að þessi tvö þúsund ára gamla borg skyldi endurreist. Alþjóðasamfélagið lofaði einum milljarði dollara. Til dagsins í dag hafa sautján milljónir dollara skilað sér. Alþjóðasamfélagið lofaði Afganistan tveim milljörðum dollara árið 2002 til þess að fjármagna uppbyggingu á fyrsta árinu eftir stríð. Til dagsins í dag hafa 90 milljónir dollara skilað sér. Sameinuðu þjóðirnar hafa nú fengið alþjóðlega endurskoðunarskrifstofu til þess að halda utan um loforð um fjárframlög sem borist hafa vegna flóðanna í Asíu. Vonandi gengur innheimtan betur að þessu sinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×