Lífið

Íslensk/amerískur tryllir í bíó

Íslensk/ameríski tryllirinn One Point O eftir leikstjórann Martein Þórsson verður frumsýndur á föstudaginn eftir viku í Háskólabíói. Marteinn skrifar einnig handritið ásamt félaga sínum Jeff Renfroe. Framleiðandi er Friðrik Þór Friðriksson. Myndin, sem er sú fyrsta frá Marteini, hefur farið sigurgöngu um heiminn og var m.a. boðið á Sundance kvikmyndahátíðina í fyrra. Þar fékk hún afbragsviðtökur og var ásamt sextán öðrum sérvöldum myndum tilnefnd til aðalverðlaunanna, Grand Jury Prize. Hún hefur einnig fengið lofsamlega dóma hjá gagnrýnendum, þ.á m. í hinu virta tímariti Film Threat, sem gaf henni 3,5 stjörnur af 4 mögulegum og kallaði þá Martein og Jeff "næstu Wachowski-ana." Var þar vísað í bræðurna sem gerðu Matrix-myndirnar þrjár. Myndin er vísindaleg spennusaga sem gerist í náinni framtíð og fjallar um mann sem notaður er í tilraunaskyni af stóru alþjóðlegu fyrirtæki. Hún skartar fjölda þekktra leikara í aðalhlutverkum og má þar helsta nefna Jeremy Sisto (Six Feet Under), Deborah Unger (The Game), Lance Henriksen (Alien-myndirnar) og Udo Kier (Dogville). Viðhafnarforsýning verður haldin á myndinni 20. janúar kl. 20.30 að viðstöddum Marteini Þórssyni sem mun kynna afsprengi sitt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.