Innlent

Hansína vill ekki klórgasið

Hansína Björgvinsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, telur að Mjöll Frigg í Vesturvör í Kópavogi fái ekki starfsleyfi til klórframleiðslu. Enginn vilji sé til að veita þeim leyfi til að vinna með klórgas á svæðinu. Bæjarráð fundar með forsvarsmanni fyrirtækisins í dag þar sem farið verður yfir málið. Hansína segir að rætt verði um hvaða framtíðaráætlanir fyrirtækið geti gert. Hún segir ekki forsvaranlegt að loka fyrirtækinu þar sem framleiðsla þess sé fjölbreytt. Hansína segir að ekki verði aðhafst vegna framleiðslu fyrirtækisins á þeim klór sem það vann án starfsleyfis. Bæjaryfirvöldum hafi verið greint frá því að þegar hafi verið unnið úr þeim birgðum. "Við höfum enga ástæðu til að kæra fyrirtækið. Við vitum ekki til þess að það sé að gera neitt ólöglegt," segir Hansína. Reynt verði að koma í veg fyrir að önnur fyrirtæki hefji vinnslu á spilliefnum án starfsleyfa í bænum. Hinrik Morthens, eigandi Mjallar Friggjar, tjáir sig ekki um málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×