Innlent

Náði naumlega inn til lendingar

Flugmaður á eins hreyfils bandarískri vél, sem var að koma hingað til lands frá Grænlandi í gærkvöldi, náði naumlega inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli eftir að hafa sent út neyðarkall þegar hann var rúmar hundrað sjómílur vestur af Keflavík. Þá var vélin að missa hæð vegna gangtruflana og var útlit fyrir að flugmaðurinn yrði að nauðlenda henni á sjónum. Þegar flugmaðurinn átti rúmar hundrað sjómílur ófarnar til Keflavíkur, og var í rösklega tuttugu þúsund feta hæð, drapst á mótornum og missti vélin í kjölfarið sautján þúsund feta hæð. En þegar hún var komin niður í 3.500 fet og útilokað var að svífa henni alla leið og nauðlending á hafinu blasti við, hrökk hreyfillinn aftur í gang og flugmaðurinn náði að hækka sig á ný upp í sex þúsund fet þar til hann hóf aðflug að velllinum. Straax og vélin drap á sér sendi flugmaðurinn út neyðarkall og hófst mikil aðgerð til að koma honum til bjargar. Tvær þyrlur frá Varnarliðinu, flugvél Flugmálastjórnar og þyrla frá Landhelgisgæslunni voru sendar af stað til móts við vélina og þyrla um borð í dönsku varðskipi í Reykjavíkurhöfn var sett í viðbragðsstöðu. Þá voru fjögur björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar send af stað og haft samband við skip og báta á væntanlegri flugleið vélarinnar. Varnarliðsþyrlurnar og flugmálastjórnarvélin fylgdu svo vélinni alveg inn til lendingar. Flugmanninum var illa brugðið en hafði náð sér í morgun og voru flugvirkjar að rannsaka vélina. Ekki er enn vitað hvað kom fyrir. Flugmaðurinn var að ferja vélina frá Bandaríkjunum til Þýskalands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×