Lífið

Þetta er Grímur Gíslason á Blönduósi

Allir landsmenn kannast við fréttaritara Ríkisútvarpsins á Blönduósi. En það eru ekki allir sem vita að hann er kominn á tíræðisaldur. Reyndar er hann 93 ára í dag. Og hefði sjálfsagt ekkert veður gert út af þessu ef tíðindamaður tímamóta hefði ekki náð tali af honum í síma. Hvar ertu fæddur Grímur? "Ég er fæddur að Þórormstungu í Vatnsdal 1912 en foreldrar mínir bjuggu þar þá. Þau fluttu síðar að Saurbæ og ég varð seinna bóndi þar." Hvenær hleyptirðu heimdraganum? Ég fór í Laugarvatnsskólann haustið ´31 en hafði ekki ástæður til frekari skólagöngu. Pabbi missti heilsuna um þetta leyti og svo var kreppan. Það voru engir peningar til. Ég var svo á Hvanneyri 35-36 og aflaði mér staðgóðrar þekkingar á búskap. Reyndi að kynna mér allt sem ég gat. Ég fór svo að búa ´42, fyrst í félagsbúi við pabba en tók alveg við 1944. Foreldrar mínir fluttu þá suður en pabbi kom flest sumur fram yfir 1950, sér til hressingar. Hann gerði ýmislegt sem aðrir gátu ekki sinnt, sló með orfi og ljá það sem ekki var véltækt o.s.frv." Kynntist þú sjálfur þessum gömlu vinnubrögðum? "Já, blessaður vertu, ég sló líka með orfi og ljá, dengdi ljá, barði niður þúfur, malaði skít í taðkvörn og dreifði honum úr trogi. Það er nú ein frumstæðasta áburðardreifing sem til er. Já, já, ég kynntist þessu öllu. Mér er minnisstætt sem krakki þegar verið var að stinga út úr húsunum á vorin. Runeberg Ólafsson var þá vinnumaður hjá pabba og hann stakk fyrir mörgum hnausum í einu. Ég man að við krakkarnir áttum fullt í fangi með að losa hnausana úr stálinu og bera þá út úr húsunum." Og ullarvinnan? "Já, það var mikil vinna í kringum ullina. Ullin öll þvegin. Svo voru þetta fyrstu verðmætin sem maður eignaðist. Ég safnaði hagalögðum og lagði inn í kaupstað. Það voru fyrstu aurarnir sem maður eignaðist og gat keypt sér eitthvað fyrir, kannski vasahníf. Leikföng voru ekki til. " Voru margar búðir á Blönduósi í þinni æsku? "Já , þær voru fjölmargar. Það er eitthvað annað en núna, þetta er eiginlega bara ein verslun og gengur kaupum og sölum. Manni finnst sem byggðirnar séu á fallanda fæti. Það þyrfti að setja takmörk á þetta kvótaverð, þessi ósköp eru að sliga allt mannlíf og byggðir í landinu." Grímur Gíslason hefur um árabil verið fréttaritari útvarpsins. Hann var líka veðurathugunarmaður á Blönduósi þar til stöðin þar var gerð að sjálfvirkri stöð. Og það er enginn bilbugur á þessum manni þótt hann sé kominn á tíræðisaldur. Við eigum áreiðanlega eftir að heyra frá honum greinargóða pistla á þessu nýbyrjaða ári, og kveðjuorðin: "Þetta er Grímur Gíslason á Blönduósi."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.