Erlent

Loft er lævi blandið í Palestínu

Ísraelsmenn hafa heldur slakað á ferðatakmörkunum vegna kosninganna í Palestínu að sögn Ögmundar Jónassonar, þingmanns og formanns Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB). Ögmundur er nú í Palestínu í boði palestínsku verkalýðshreyfingarinnar. "Það er óhætt að segja að hér sé loft lævi blandið," segir Ögmundur. "Ég verð fyrir áfalli daglega. Nærvera ísraelska hersins er svo raunveruleg. Ef þetta er tilslökun hjá ísraelska hernum þá býð ég ekki í það hvernig ástandið er hérna á öðrum tímum." Ögmundur segir fólk sem hann hafi rætt við almennt sammála um að Mahmoud Abbas sigri þó Mustafa Barghouti hafi sótt í sig veðrið undanfarna daga. Ögmundur hefur heimsótt kosningaskrifstofur Abbas og Barghoutis. "Það er ljóst að Abbas er með allt stofnanaveldið á bak við sig en hinn síður. Abbas er talinn líklegri til að vera sveigjanlegri í samningum við Ísraelsmenn en Barghouti. Þá stendur Barghouti heldur lengra til vinstri í stjórnmálum en Abbas. Það vakti athygli mína að í báðum herbúðum er talað vel um andstæðinginn."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×