Erlent

Bið eftir stjórnarmyndun

Íraska kjörstjórnin kynnti í gær staðfest úrslit í þingkosningunum en talið er að nokkrar vikur líði áður en ný ríkisstjórn tekur við völdum. Ástæðan er sú að flokkarnir sem sæti eiga á þingi hafa enn ekki komið sér saman um hver verði næsti forsætisráðherra. Sameinaða íraska bandalagið, kosningabandalagið sem sjíaklerkurinn Ali Al-Sistani kom á fót, er með nauman meirihluta þingsæta á 275 sæta stjórnlagaþingi. Bandalagið vantar 42 sæti upp á að hafa þá tvo þriðju hluta atkvæða sem þarf til að útnefna forseta, tvo varaforseta, forsætisráðherra og stjórn hans. Kúrdíska bandalagið er talið hafa samið við Sameinaða íraska bandalagið um að fá embætti forseta, sem er að mestu valdalaust, gegn stuðningi við forsætisráðherraefni Sameinaða íraska bandalagsins. Engin tímamörk eru fyrir því hvenær stjórnlagaþingið kemur saman eða hvenær forseti og varaforsetar verða kjörnir. Hins vegar mega mest líða tvær vikur frá kjöri forseta þar til forsætisráðherra er valinn. Aðeins tólf af 111 framboðum fengu fulltrúa á þingi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×