Viðskipti erlent

Frummenn slappir í bissness

Lengi hefur verið deilt um það hvernig staðið hafi á því að Neanderthalsmaðurinn dó út fyrir um þrátíu þúsund árum. Nú hefur sú kenning komið fram að ástæða hafi verið sú að Neanderthalsmenn hafi verið lélegir kaupmenn. Neanderthalsmenn voru miklu fyrri til að setjast að í Evrópu heldur en nútímamaðurinn og hafa mannfræðingar lengi velt vöngum fyrir því af hverju stofn þeirra dó út smám saman. Talið er að nútímamenn og Neanderthalsmenn hafi um langa hríð átt vinsamleg samskipti og jafnvel er talið að einstaklingar af sitt hvorri tegundinni hafi átt afkvæmi saman. Neanderthalsmenn eru taldir hafa lifað góðu lífi í um 260 þúsund ár áður en þeir skyndilega dóu út. Mannfræingar eru engan veginn sammála um hvað olli en ný kenning lítur til hagfræðinnar til að skýra ráðgátuna. Í tímaritinu New Scientist segir frá rannsókn hagfræðingsins Jason Shogren sem útbúið hefur tölvulíkön þar sem reynt er að endurhanna atburðarrásina sem varð til þess að Neanderthalsmenn dóu út í Evrópu. Niðurstaða hagfræðingsins er sú að líkleg skýring sé sú að nútímamaðurinn hafi haft miklu meiri getu til að stunda verslun og sérhæfa sig. Vísbendingar eru uppi um að nútímamenn fyrir fjörtíu þúsund árum hafi skipst á dýrmætum vörum og komið sér upp dreifileiðum sem náðu yfir stór landflæmi í Evrópu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×