Lífið

Fanney er ritari Brunetti

Þær eru ekki margar konurnar á Kárahnjúkum en þó nokkrar og sinna ýmsum störfum, aðallega skrifstofuvinnu. Fanney Magnúsdóttir er ein þessara kjarnakvenna. Hún er ritari Luciano Brunetti en hann er einn af toppstjórnendum Impregilo á Íslandi og sér um fjármál og starfsmannamál. Fanney kom til starfa hjá Impregilo í lok júní í fyrra en hún var leiðbeinandi við grunnskólann í Brúarási. Hún missti vinnuna þegar réttindakennari var ráðinn til starfa. Hún hafði áður starfað sem ritari og var því kjörin til starfans. Hún sinnir einkum skjalavörslu, símsvörun og almennri skrifstofuvinnu. Stór hluti af starfinu er líka þýðingar af ensku á íslensku og öfugt. Aðrir starfsmenn eru síðan fengnir til að grípa í þýðingar eftir því hvert móðurmál þeirra er og svo er leitað til löggilts skjalaþýðanda þegar þörf krefur. Fanney er búsett í Fellabæ en hefur herbergi á Kárahnjúkum. Hún stundar fjarnám við Kennaraháskólann og eyðir því frítíma sínum yfirleitt í námið. Eftir að vinnudegi lýkur klukkan sex sest hún við tölvuna inni í herbergi til að læra. Um helgar fer hún alltaf heim og stundum skreppur hún heim á kvöldin eftir að vinnudegi lýkur ef veður leyfir. Hún hefur því ekki sótt mikið félagslífið á staðnum en Impregilo rekur klúbb í félagsmiðstöðinni og þar er hægt að gera ýmislegt sér til afþreyingar; horfa á fréttir eða vídeó og tefla eða spila. Á laugardagskvöldum er pitsa og þá er hægt að dansa eða fara í karaókí. Fanneyju finnst gott að vinna á Kárahnjúkum. "Fólkið er gott og það er sérstakt og gaman að vera í svona alþjóðlegu umhverfi," segir hún. Karlarnir á Kárahnjúkum eru notalegir við konurnar á staðnum, jafnvel þeir íslensku eru farnir að opna dyr og sýna háttvísi og kurteisi í umgengni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.