Innlent

Byggt við Björgunarmiðstöðina

SHS-fasteignir ehf. hafa samið við Keflavíkurverktaka hf. um byggingu þriðja og síðasta áfanga Björgunarmiðstöðvarinnar Skógarhlíðar í Reykjavík og munu Landhelgisgæslan og Bílamiðstöð Ríkislögreglustjórans flytja í nýja húsnæðið. Um er að ræða 1.626 fermetra alls og er byggingarkostnaður áætlaður 258 milljónir króna. Framkvæmdir hefjast nú í janúar en þeim á að vera lokið 31. ágúst næstkomandi.Byggð verður 540 fermetra skrifstofubygging ofan á suðurálmu þar sem verkstæði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) og fleira er á 1. hæð. Gerður hefur verið leigusamningur við Landhelgisgæsluna til 15 ára sem gerir ráð fyrir að Landhelgisgæslan flytji höfuðstöðvar sínar af Seljavegi í nýja húsnæðið að framkvæmdum loknum. Landhelgisgæslan mun einnig taka á leigu núverandi skrifstofuhúsnæði Tetra Ísland og 112. Tetra Ísland flytur starfsemi sína annað en 112 fær aðstöðu fyrir skrifstofur sínar annars staðar í byggingunni. Ennfremur verður byggt 226 fermetra stigahús milli suðurálmu og núverandi skrifstofuálmu með inngangi bæði frá Flugvallarvegi og bakporti. Þá gerir samningurinn ráð fyrir að byggt verði 860 fermetra bíla- og tækjahús á baklóðinni austan við Björgunarmiðstöðina. Bílamiðstöð Ríkislögreglustjórans flytur starfsemi sína í húsið en hún er nú í Borgartúni. Landhelgisgæslan og SHS munu einnig hafa aðstöðu í húsinu fyrir lager og tæki. Í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð starfa Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, 112, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjórans og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjórans. Húsið er í eigu SHS fasteigna ehf., dótturfélags SHS.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×