Viðskipti erlent

Fá ekki "eu" endingu

Aðilar utan Evrópusambandsins geta aðeins fengið "eu" endingu að því tilskyldu að þeir séu með skráð vörumerki eða útibú innan ESB-landanna. Þessu hafa EES- og EFTA-ríkin mótmælt harðlega. Evrópusambandið hefur hafið skráningu á lénum með "eu" endingu. Búist er við hundruð þúsunda skráninga fyrstu dagana.

Fyrstu fjóra mánuðina fá allir handhafar skráðra vörumerkja og fyrirtæki innan ESB að skrá sig fyrir "eu" endingu og eftir þann tíma allir einstaklingar með lögheimili í Evrópusambandslöndunum. EFTA-ríkin hafa bent á að með útilokun frá "eu" skráningu sé verið að mismuna fyrirtækjum og einstaklingum innan evrópska efnahagssvæðisins að innri markaðinum en í fyrstu grein EES-samningsins segir: "Markmið þessa samstarfssamnings er að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt evrópskt efnahagssvæði."

Með upptöku "eu" endingarinnar vonast Evrópusambandið til auka sölu á internetinu. Neytendur eiga að geta treyst fyrirtækjum sem enda á eu vegna þess að reglur um neytendavernd og ábyrgð söluaðila eru mjög strangar innan Evrópusambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×