Erlent

92 kærðir í mútumáli

Sænskir saksóknarar hafa ákært 92 einstaklinga í hneykslismáli sem hefur umleikið áfengisverslun sænska ríkisins, Systembolaget. 77 starfsmenn Systembolaget hafa verið ákærðir fyrir að þiggja mútur og fimmtán starfsmenn þriggja birgja hafa verið ákærðir fyrir að greiða eða bjóða mútur. Meirihluti þeirra 77 starfsmanna Systembolaget sem voru ákærðir störfuðu sem verslunarstjórar. Þeir eru ákærðir fyrir að þiggja mútur frá áfengisbirgjum fyrir að taka vörur þeirra til sölu í verslunum sínum. Janne Lehtinen, sem stýrði rannsókninni, sagði að megnið af mútunum hefði verið fólgið í peningagreiðslum inn á launareikninga starfsmanna Systembolaget. Múturnar námu andvirði um tíu milljóna íslenskra króna á tveggja ára tímabili. Málið kom upp á yfirborðið í janúar 2003 þegar stjórnendur Systembolaget ráku fimm verslunarstjóra og sögðu ástæðuna þá að þeir hefðu þegið mútur frá birgjum sem vildu koma ákveðnum vörum á framfæri. Samkvæmt lögum um áfengissölu er verslunarstjórum stranglega bannað að koma einstökum tegundum á framfæri umfram aðrar. Norðmenn rannsaka líka meinta mútuþægni starfsmanna norsku áfengiseinkasölunnar, Vinmonopolet. Tíu starfsmenn sæta refsingum án þess þó að sæta ákæru, fyrir að hafa þegið gjafir og ókeypis skemmtanir frá áfengisinnflytjendum. Tveir kunna að missa vinnuna, þrír kunna að sæta stöðulækkun og fjórir fá skriflega viðvörun. Enn á eftir að taka ákvörðun um einn þeirra sem sætti rannsókn. Forstjóri Vinmonopolet, Knut Grøholt, sætti einnig rannsókn fyrir að hafa þegið utanlandsferðir frá öðrum fyrirtækjum. Rannsóknarmenn komust að þeirri niðurstöðu að hann hefði ekkert brotið af sér þar sem hann hefði farið í ferðirnar til að byggja upp og viðhalda viðskiptatengslum. Fyrirtækin sem hann þáði ferðir af voru meðal annarra símafyrirtækið Telenor og dótturfyrirtæki þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×