Erlent

Gekk berserksgang í menntaskóla

Níu manns liggja í valnum eftir að bandarískur menntaskólanemi gekk berserksgang og skaut á hvað sem fyrir varð í menntaskólanum sínum.  Nemandinn drap níu manns og særði fjórtán til viðbótar þegar hann hóf skothríð í menntaskólanum sem er á verndarsvæði indjána í Minnesota í gær. Drengurinn komst yfir riffil og skammbyssu á heimili afa síns og ömmu. Svo virðist sem hann hafi skotið þau bæði til bana, áður en hann hélt af stað í skólann en þar eru aðeins um 300 nemendur. Þegar þangað var komið hóf hann skothríð með þeim afleiðingum að fimm nemendur, einn kennari og öryggisvörður féllu í valinn og fimmtán nemendur særðust, þar af nokkrir alvarlega. Að lokum virðist drengurinn hafa skotið sjálfan sig í höfuðið, þó að lögregla hafi ekki enn staðfest það. Atvikið minnir um margt á morðin í Columbine-menntaskólanum árið 1999 þegar tveir nemendur skutu tólf samnemendur sína til bana og særðu meira en tuttugu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×