Erlent

Síðbúin stefnuskrá frjálslyndra

Frjálslyndir demókratar kynntu í gær stefnuskrá sína fyrir bresku þingkosningarnar. Litlar breytingar virðast á fylgi flokkanna samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum. Íhaldsmenn og Verkamannaflokkurinn kynntu báðir stefnumál sín í vikunni. Frjálslyndir demókratar ætluðu að kynna sín mál á þriðjudaginn en þar sem Charles Kennedy, leiðtoga flokksins, og konu hans fæddist sonur þá dróst kynningin fram til gærdagsins. Ólíkt íhaldsmönnum og Verkamannaflokknum sem hafa lofað að hækka ekki skatta segjast frjálslyndir ætla að auka álögur á hátekjufólk. Í staðinn boða þeir hærri ellilífeyri og lægri gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu auk þess sem þeir vilja stórfjölga lögreglumönnum og kennurum. Frjálslyndir hafa alla tíð verið andvígir hernaðinum í Írak og hvetja í stefnuskrá sinni til að herlið Breta verði kallað heim snemma á næsta ári. Bæði Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn studdu innrásina á sínum tíma þrátt fyrir mikla andstöðu almennings og því ætti afstaða frjálslyndra í þessum efnum að koma þeim til góða þann 5. maí. Michael Howard, leiðtogi Íhaldsmanna, réðist harkalega að Tony Blair forsætisráðherra í morgun eftir að Kamel Bourgass var dæmdur í gær til fangelsisvistar fyrir að skipuleggja árás á almenning með eiturefninu rísín. Bourgass kom til Bretlands árið 2001 sem flóttamaður og hafði mál hans velkst í kerfinu í langan tíma. Howard sagði að ef Verkamannaflokkurinn hefði staðið við gefin loforð í málefnum flóttamanna þá hefði Bourgass aldrei verið hleypt inn í landið. Þrátt fyrir líflega viku hafa litlar breytingar orðið á fylgi flokkanna samkvæmt skoðanakönnunum. Dagblaðið The Guardian birti í gær könnun þar sem Verkamannaflokkurinn hafði bætt við sig dálitlu fylgi, fengi 39 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú. Íhaldsmenn tapa aftur á móti örlitlu fylgi, fengju 33 prósent atkvæða en frjálslyndir demókratar standa hins vegar í stað, fengju 21 prósent atkvæða ef kosið yrði nú.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×