Erlent

Sjíar vilja sambandsríki

Íraskir sjíar virðast óðum að komast á þá skoðun að skipta beri landinu upp í sambandsríki og bætast þar með í hóp Kúrda, sem eru mjög áhugasamir um slíka stjórnskipan. Súnníar eru þessu aftur á móti mjög mótfallnir. Fresturinn sem Írakar tóku sér til að semja texta framtíðarstjórnarskrár sinnar rennur út á mánudaginn en landsmenn greiða svo atkvæði um plaggið í október. Fulltrúum sjía, súnnía og Kúrda hefur hins vegar gengið afleitlega að koma sér saman um innihald þess og er vandséð að þeim takist að ljúka vinnunni áður en fresturinn rennur út. Það er ekki síst spurningin um hvort Írak skuli verða sameinað og miðstýrt ríki eða lauslegt sambandsríki sem hefur verið ásteytingarsteinn. Kúrdar hafa barist fyrir síðarnefndu útfærslunni en súnníar hafa með oddi og egg varið núverandi fyrirkomulag. Í gær lýsti Abdul-Aziz al-Hakim, einn áhrifamesti stjórnmálamaður heittrúaðra sjía, þeirri skoðun sinni á fundi í hinni helgu borg Najaf að stefna bæri að því að suðurhluti landsins fengi sjálfstjórn í sem flestum málaflokkum svo að pólitísku jafnvægi verði náð í Írak. Ummæli al-Hakim eru merkileg þar sem heittrúaðir sjíar hafa hingað til heldur hallast að miðstýrðri stjórnskipan. Dagblaðið New York Times hermir að fyrir fundinn hafi al-Hakim rætt við Ali Sistani erkiklerk, en hann er af mörgum talinn áhrifamesti maður Íraks. Sé Sistani sammála hugmyndum um sambandsríki er mjög líklegt að stjórnarskráin muni kveða á um slíkt fyrirkomulag. Súnníar hafa þegar harðlega gagnrýnt þetta útspil al-Hakim og segja það draga úr líkum á að stjórnarskrárnefndin nái samkomulagi fyrir mánudaginn. Þorri íbúa Suður-Íraks er sjíar, Kúrdar byggja norðrið en súnníar eru fjölmennir í miðhluta landsins. Skipting landsins í sjálfsstjórnarhéruð myndi taka mið af því. 80-90 prósent af olíulindum Íraks og eina höfn þess eru í suðurhlutanum og því er ekki að undra að margir sjíanna hugsi sér gott til glóðarinnar á sama tíma og súnnía hrylli við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×