Erlent

Börn í Asíu þurfa mikla hjálp

Yngstu fórnarlömb hamfaranna í Asíu þurfa mikla hjálp, bæði andlega og líkamlega. Áhersla er lögð á að koma þeim til hjálpar en að gleyma ekki tugmilljónum annarra barna um allan heim, sem búa við bág kjör. Í 33 löndum er líf milljóna barna í bráðri hættu. Víða á flóðasvæðunum hófst skólastarf á ný í dag, mánuði eftir hamfarirnar. Það er sagt gott fyrir börnin að koma aftur í skólann, hitta þá vini sína sem eftir eru, tala um reynslu sína og fá einhverja reglu á lífið. Sum þeirra virðast ótrúlega brött, eins og Romi Saputra í Aceh-héraði í Indónesíu. Hann segist vilja verða forseti svo hann geti byggt hús handa öllum. Talið er að 45 þúsund skólabörn hafi farist í héraðinu og þau sem eftir lifa verða lengi að vinna úr áfallinu sem þau urðu fyrir. Á Srí Lanka er svipaða sögu að segja, en þar er talið að fjórir af hverjum tíu sem fórust hafi verið börn. Eftirlifendur standa margir hverjir eftir sem munaðarleysingjar. Þeirra á meðal er Chalom. Hún missti móður sína, ömmu og tvo bræður og þá eyðilagðist hús fjölskyldunnar og hún missti allt sem hún átti. Örlög þessara barna eru grimmileg en því miður eru þau ekki einu börnin sem þurfa á hjálp að halda. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna sendi í dag frá sér árlega skýrslu og þar kemur fram að börn í 33 löndum þurfa á hjálp að halda í skyndingu. Telja sérfræðingar barnahjálparinnar þörf á 48 milljörðum króna til að aðstoða þau. Meirihluti þessara barna býr í Afríku og þó að örlög þeirra hafi ekki hlotið mikla athygli er aðkallandi að bregðast við vanda þeirra líka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×