Innlent

Segir öldruðum mismunað

Á Sólvangi. Engin stefnubreyting hefur orðið af hálfu stjórnvalda í málefnum aldraðra.
Á Sólvangi. Engin stefnubreyting hefur orðið af hálfu stjórnvalda í málefnum aldraðra.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að engin stefnubreyting hafi orðið af hálfu stjórnvalda í málefnum aldraðra og engin ákvörðun hafi verið tekin sem leitt geti til mismununar eftir efnahag aldraðra. Þetta kom fram í svari Halldórs við óundirbúinni fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur, þingmanns Samfylkingar, á Alþingi í gær.

Ásta vildi vita hvort fregnir í fjölmiðlum undanfarið vísuðu til einhverrar stefnubreytingar af hálfu stjórnvalda í málefnum aldraðra. Forstöðumaður öldrunarheimilis hefði staðfest í Kastljósi að aðstandendur aldraðra gætu keypt þjónustu umfram það sem daggjöld segja til um og þannig væri verið að mismuna þeim sem þjónustunnar njóta eftir efnahag. Ásta sagði að grunnþjónustan nægði ekki fyrir Alzheimersjúklinga og undraðist að forsætisráðherra hefði ekki heyrt að aðstandendur væru farnir að kaupa viðbótarþjónustu.

Halldór Ásgrímsson ítrekaði að sér væri ekki kunnugt um að verið væri að kaupa aukaþjónustu. Hann vísaði til nýrrar úttektar Ríkisendurskoðunar um þjónustu við aldraða sem hann taldi vandaða og leggja ætti til grundvallar þegar fjallað væri um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×