Sport

Kannski er ég ástæðan?

„Maður er búinn að vera í þessari fallbaráttu í mörg ár þannig að maður verður að sjálfsögðu þreyttur á þessu." sagði Ingvar Þór Ólason, leikmaður Fram, en félagið datt niður í fallsæti með ósigrinum gegn ÍBV í Vestmannaeyjum á sunnudagskvöld. Framarar þekkja fallbaráttuna vel en síðustu sex ár hefur liðið náð að forðast fall í lokaumferð, oft á óskiljanlegan hátt. „Við höfum velt því endalaust fyrir okkur hvað er að en svo virðist sem ómögulegt sé að finna svör. Við héldum að við værum á réttri leið núna og trúum því enn þá. Það er pottþétt að þetta er eitthvað í hausnum á okkur en hvað það er veit ég ekki," sagði Ingvar. Tilraunir Fram til að forðast fallbaráttuna hafa ekki skilað árangri. Þrátt fyrir þjálfaraskipti, nýja leikmenn, mikla bjartsýni í Safamýri og góða byrjun þá fer alltaf allt í sama farið. „Ólafur þjálfari er alveg pottþétt rétti maðurinn í starfið. Hann er með góðan grunn fyrir okkur en við þurfum að gera eitthvað sjálfir líka, ekki vera eins og einhver vélmenni," sagði Ingvar sem er þó enn fullur bjartsýni. „Það er enn nóg eftir og við getum alveg klárað þetta mót með sæmd. Spilamennska liðsins hefur verið upp og ofan en það hafa komið góðir kaflar inn á milli. Við þurfum bara að vera duglegri að skapa okkur færi," sagði Ingvar, sem þekkir ekki bara fallbaráttu með Fram heldur líka sem leikmaður Þróttar og Fylkis. „Kannski að ég sé ástæðan fyrir þessu! Ég ætti kannski bara að prófa að draga mig í hlé," sagði hann í léttum tón. Ingvar var að vonum svekktur yfir því að Fram hafi tapað leiknum gegn ÍBV. „Þetta var sex stiga leikur á sunnudag og mjög slæmt að tapa þannig leikjum. Við byrjuðum á móti rosalegum vindi og fáum svo vafasamt víti dæmt á okkur," sagði Ingvar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×