Innlent

Vont að nýta sér spilafíkn

Samanlagðar tekjur Happdrættis Háskóla Íslands árin 2003 og 2004 að frádregnum vinningum og kostnaði námu um 960 milljónum króna. Tekjur Íslandsspils af söfnunarkössum námu á sama tímabili tæpum 1.730 milljónum króna að frádregnum vinningum og kostnaði. Heildarvelta þessara tveggja fyrirtækja árið 2004 var nálægt 3,2 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar þingmanns Vinstri grænna. Hann segist spyrja um þessar upphæðir vegna þess að baki þeim búi miklar þjáningar.

"Það er ömurlegt hlutskipti fyrir þjóðþrifastofnanir, sem standa að baki Íslandsspilum og Háskóla Íslands, að hafa fé af fólki sem ræður ekki við spilafíkn sína. Það er sannað að það er verið að hafa þessa peninga úr vösum fólks á öllum aldri sem ræður ekki við sig í námunda við spilavítisvélar. Ég hef viljað banna þessa kassa með lögum. En um leið eigum við að fá Háskóla Íslands og þjóðþrifasamtökum sem standa að Íslandsspilum aðra tekjustofna," segir Ögmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×