Innlent

Ríkislögreglustjóri fær ekki að leiðrétta ákæruna

Ríkislögreglustjóranum leyfist ekki að leiðrétta ákæru á hendur forsvarsmönnum Frjálsrar fjölmiðlunar; bæði var hann of seinn og leiðréttingin óskýr.

Framhaldsákæra í málinu var gefin út þegar ljóst var að rangar tölur höfðu verið færðar í ákæruna að hluta. Þar sem framhaldsákæran var ekki gefin út innan þriggja vikna frá því að ljóst hefði átt að vera að leiðréttingar væri þörf er henni vísað frá. Dómarinn telur villu í frumákæru ekki vera smávægilega og telur hann leiðréttingu í framhaldsákæru ekki vera skýra. Saksóknari í málinu mun nú í framhaldinu annað hvort kæra úrskurðinn til Hæstaréttar eða koma fram leiðréttingu á frumákærunni í málflutningi sínum. Málið verður þingfest í lok þessa mánaðar.

Málið er höfðað gegn tíu stjórnendum Frjálsrar fjölmiðlunar og dótturfyrirtækja. Frjáls fjölmiðlun fór á hausinn fyrir þremur árum og var gjaldþrotið eitt hið stærsta í íslenskri viðskiptasögu. Kröfur í þrotabúið námu um 2,2 milljörðum króna en aðeins fengust um 300 milljónir upp í kröfurnar. Fyrirtækið rak meðal annars DV og Fréttablaðið og var í meirihlutaeigu feðganna Sveins R. Eyjólfssonar og Eyjólfs Sveinssonar. Flestir sakborninganna eru ákærðir fyrir vangoldinn virðisaukaskatt og staðgreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×