Sport

Ólöf að leika vel á Spáni

Ólöf María Jónsdóttir, kylfingur úr Golfklúbbnum Keili, lék þriðja hringinn á Tenerife-mótinu á evrópsku kvennamótaröðinni í golfi á 72 höggum eða pari vallarins. Hún hefur því leikið hringina þrjá á 218 höggum eða tveimur höggum yfir pari. Ólöf María spilaði tólf holur á pari vallarins, þrjár á fugli og þrjár á einu höggi yfir pari. Hún var lengi á einu höggi undir pari en fékk skolla á fimmtándu holu og endaði því á pari. Hún er í 32. til 40. sæti fyrir lokahringinn en Ludivine Kreutz frá Frakklandi er efst en hún hefur leikið holurnar 54 á níu höggum undir pari. Ólöf María sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að hún væri mjög sátt við spilamennsku sína síðustu tvo dagana. "Ég var búin að bíða síðan í nóvember eftir þessu móti og það hafði sín áhrif á leik minn fyrsta daginn. Síðan hef ég spilað vel og stefnan er að halda áfram á sömu braut," sagði Ólöf María sem stefndi að því fyrir mótið að verða á meðal þrjátíu efstu á mótinu."Það þýðir ekkert fyrir mig að hugsa um að spila á ávkeðnum höggafjölda. Það eina sem gildir er að reyna að fá fram stöðugleikann. Ef ég spila lokahringinn eins og ég hef spilað síðustu tvo þá yrði ég hæstánægð."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×