Erlent

Konur betri bílstjórar

Ef allir ökumenn keyrðu eins og konur þá yrðu færri dauðaslys í umferðinni. Þetta er í grófum dráttum meginniðurstaða nýrrar rannsóknar sænsku umferðarstofnunarinnar. Í niðurstöðum skýrslu sænsku umferðarstofnunarinnar kemur fram að stór hópur karlbílstjóra taki meiri áhættu í umferðinni en konur. Tölfræðin styður þá staðhæfingu þar sem í ljós kemur að karlmenn sitja undir stýri í átta af hverjum tíu banaslysum í umferðinni. Á meðal þess sem tínt er til um hættulega hegðun karla er að það eru yfirleitt karlar sem aka bílum sem lenda í banaslysum sem rekja má til framúraksturs. Sænska umferðarstofnunin segir að niðurstöður rannsóknarinnar sé ekki hægt að útskýra með því að karlar aki meira en konur. Jafnvel þegar sá þáttur er leiðréttur og jafnaður kemur í ljós að það eru tvisvar sinnum meiri líkur á að karlar láti lífið í bílslysum en konur. Forstjóri sænsku umferðarstofunnar styður niðurstöður rannsóknarinnar. Hann segir konur taka minni áhættu í umferðinni, en að hegðun þeirra líkist þó æ meir hegðun karlanna. Það lýsi sér í því að stöðugt fleiri konur eru stöðvaðar og sektaðar fyrir of hraðan akstur. Hins vegar séu þær enn til fyrirmyndar á flestum sviðum aksturs. Það sé til að mynda undantekning að konur séu teknar ölvaðar undir stýri eða valdi slysum vegna ölvunar. Hins vegar samþykki allt of margar konur að eiginmaðurinn aki fullur heim úr veislunni, vitandi vits að hann sé ekki í ökuhæfu ástandi, segir forstjóri sænsku umferðarstofunnar. En besta ráðið til að fækka slysum samkvæmt þessari skýrslu er einfaldlega þetta: Strákar! Keyrum eins og stelpurnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×