Viðskipti innlent

Yfirtökutilboð í Whittard lagt fram

Stjórnarformaður Julian Graves. Pálmi Haraldsson er stjórnarformaður Julian Graves, sem hefur gert yfirtökutilboð Whittard of Chelsea. Julian Graves hefur opnað 90 búðir frá því að íslenskir fjárfestar komu að félaginu.
Stjórnarformaður Julian Graves. Pálmi Haraldsson er stjórnarformaður Julian Graves, sem hefur gert yfirtökutilboð Whittard of Chelsea. Julian Graves hefur opnað 90 búðir frá því að íslenskir fjárfestar komu að félaginu.
Breska verslunarkeðjan Julian Graves lagði í gær fram yfirtökutilboð í Whittard of Chelsea, sem rekur te-, kaffi- og gjafavöruverslanir því tengdar. Yfirtökutilboðið hljóðar upp á 21,5 milljónir punda eða sem nemur 2,4 milljörðum króna.

Julian Graves rekur 265 verslanir á Bretlandseyjum í miðbæjum borga og verslunarmiðstöðvum. Baugur á sextíu prósenta hlut í Julian Graves, en aðrir eigendur eru Nicholas Shutts, stofnandi Julian Graves, og félög í eigu Jóns Scheving Thorsteinssonar og Pálma Haraldssonar, sem er stjórnarformaður Julian Graves.

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Baugs í Bretlandi segir kaupin bjóða upp á ýmis tækifæri. "Whittard er vel þekkt og rótgróið vörumerki og hér er einstakt tækifæri til að byggja það upp með þeim krafti sem býr í Julian Graves," segir Gunnar. Hann segir að með kaupunum sé verið að fara svipaða leið og gert var með því að sameina Oasis og Karen Millen sem tilheyra nú Mosaic Fashion.

"Við erum að byggja upp fyrirtæki sem hafa bolmagn til að vaxa." Hann segist vonast til þess að hluthafar muni taka tilboðinu vel. Nick Shutts, stofnandi Julian Graves, segir tækifærið spennandi og koma þegar fyrirtækið sé að hefja nýtt vaxtarskeið. Stefnt sé að opnun eitthundrað verslana á næstu tveimur til þremur árum. Hann segir tilboðið sýna svart á hvítu kosti þess að hafa Baug Group sem bakhjarl og að hann og hans fólk hefði skort sérþekkingu og bolmagn til að fylgja slíkum kaupum eftir án þess að það ylli truflun á rekstri Julian Graves.

Julian Graves selur ýmiss konar lúxusskyndibita, hnetur og þurrkaða ávexti. Gengi bréfa Whittard hefur lækkað mikið undanfarið ár. Stjórn félagsins hefur mælt með því að yfirtökutilboðinu verði tekið og kaupendur hafa tryggt sér stuðning 64 prósenta hluthafa Whittard. Teather and Greenwood, sem er í eigu Landsbankans, stóð að tilboðinu fyrir hönd kaupenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×