Viðskipti innlent

Þensla á vinnumarkaði

Gissur segir að hluta árstíðabundin sveifla þegar skólafólk fari af vinnumarkaðnum. „En þetta er meira áberandi núna en hefur verið. Það ber því vitni að það er gífurleg þensla á vinnumarkaðnum.“ Ásgeir Jónsson, hagfræðingur hjá KB banka, segir launaskrið líklega farið af stað eins og oft tíðkist hér á landi þegar atvinnuleysi er mjög lítið. Þetta hafi verið algeng þróun á árunum 1970 til 1988. Innflutt vinnuafl, sem megi sjá í fleiri störfum en byggingariðnaði, hafi haldið aftur af þessari þróun hingað til. Eins og Gissur nefnir vantar starfsfólk í fjölmörg þjónustustörf og sjást þess merki í atvinnuauglýsingum. Virðist litlu breyta þó víða megi sjá fjölda útlendinga starfa í byggingariðnaði, á veitingahúsum, við þrif, í ferðaþjónustu og fleiri greinum. Ein birtingarmynd aukinnar eftirspurnar eftir fólki er að laun hækka. Síðustu tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 6,6 prósent. Í launakönnun Verzlunarmannafélags Reykjavíkur í ár kemur í ljós að sjötíu prósent þátttakenda fá einhvers konar hlunnindi, sem eru hluti af launum, en í fyrra var hlutfallið 43 prósent. Snorri Kristjánsson hjá VR segir síma og bíl vera langalgengustu hlunnindin. Húsasmiðjan brá á það ráð að auglýsa eftir starfsfólki úr eldri aldurshópunum. Guðrún Kristinsdóttir, starfsmannastjóri Húsasmiðjunnar, segir að það hafi gefist gríðarlega vel og um sextíu umsóknir borist. Það hafi komið á óvart að umsækjendur voru yngri en búist var við. Hugmyndin var meðal annars að ná til fólks sem var komið út af vinnumarkaðnum. Lárus Blöndal, deildarstjóri vinnumarkaðsdeildar Hagstofunnar, segir atvinnuþátttöku í aldurshópnum 55 til 74 ára vera tæp 65 prósent. Þetta sé sá hópur sem helst sé hægt að sækja í til að fá á vinnumarkaðinn aftur. Hann bendir þó á að þetta hlutfall hér sé mun hærra en í löndum Evrópusambandsins. Þar hafi verið gerðar áætlanir um að ná þessu hlutfalli yfir fimmtíu prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×