Erlent

Myndband sýnir ógnarkraft flóðsins

Myndband sem sýnir þegar flóðbylgjan á annan dag jóla skellur á Aceh-hérað í Indónesíu sýnir vel þvílíkir ógnarkraftar voru að verki. Jarðskjálftinn sem reið yfir á undan olli líka miklu tjóni í héraðinu. Myndatökumaður sem ætlaði að taka myndir í brúðkaupi í Banda Aceh, höfuðstað Ache-héraðs, í norðurhluta Indónesíu, náði þessum myndum þegar flóðbylgjan skall á borginni. Í fyrstu er straumurinn ekki þungur og fólk hleypur eða ekur undan honum. Smám saman bætist í og innan nokkurra sekúndna er flóðið orðið straumþungt og eirir engu. Hamfarirnar í Aceh-héraði byrjuðu með jarðskjálftanum sem mældist níu á Richter og átti upptök sín skammt frá. Jarðskjálftinn sjálfur olli gríðarlegu tjóni og þegar flóðbylgjan skall á ströndinni aðeins um hálftíma síðar var margt fólk úti við að kanna skemmdirnar eftir skjálftann. Alls er talið að yfir 104 þúsund Indónesar hafi farist í hamförunum. Áhrifa hamfaranna gætir einkum í Aceh-héraði í Indónesíu og á Srí Lanka en á báðum stöðum hafa geisað borgarastyrjaldir. Á fyrstu dögunum eftir hamfarirnar var sátt um vopnahlé svo hægt væri að koma nauðstöddum til bjargar en nú spretta deilur upp að nýju. Til að mynda kom til skotbardaga í Aceh-héraði í morgun og allt er hlaupið í bál og brand á Srí Lanka eftir að ríkisstjórn landsins neitaði Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um leyfi til að heimsækja yfirráðasvæði Tamíl-tígra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×