Erlent

Vísindamenn í skýjunum

Yfirborð Títans, tungls Satúrnusar, er ljósappelsínugult og þakið þunnu lagi metans. Þetta blasti við vísindamönnum Evrópsku geimvísindastofnunarinnar þegar þeir sökktu sér niður í myndir og önnur gögn sem geimfarið Huygens sendi frá Títan, gögn sem það safnaði þegar það sveif til jarðar og eins þegar það var lent á tunglinu. Vísindamenn voru að störfum alla fyrrinótt við að fara yfir gögn og skerpa myndir. Þeir eru hæstánægðir með árangurinn. "Tækin hafa virkað frábærlega," sagði John Zarnecki, sem hefur yfirumsjón með tækjum sem notuð eru á yfirborðinu. "Við getum ekki fundið merki þess að nokkur gögn vanti. Samskiptatengingin og gæði gagnanna voru stórkostleg." Ein mynd, sem tekin var í sextán kílómetra hæð yfir tunglinu, sýndi dökkar útlínur sem gáfu til kynna farvegi þar sem vökvi hefði streymt inn á dökkt svæði sem talið er haf myndað úr fljótandi metangasi. Inni á milli voru dekkri svæði sem kunna að vera eyjar. "Það er næstum ómótstæðilegt að ímynda sér að dökka svæðið sé einhvers konar framræsluskurðir, að við séum að horfa upp á einhvers konar strandlengju," sagði Marty Tomasku, yfirmaður myndatökudeildarinnar, en tók fram að vísindamennirnir vissu enn ekki hvort þar væri einhvern vökva að finna.
YFIRBORÐ TÍTANS. Yfirborð Títans er dekkra en menn áttu von á, það er blanda frosins vatns og kolvatnsefna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×