Innlent

Óánægðir með starfsfyrirkomulag

Dæmi eru um að strætisvagnabílstjórar hafi hætt störfum vegna óánægju með breytingar á starfsfyrirkomulagi samfara nýju leiðakerfi að sögn Ásgeirs Eiríkssonar, framkvæmdastjóra Strætó bs. Aukaferðir stofnleiða á álagstímum sem gert er ráð fyrir í nýja leiðakerfinu hafa verið felldar niður í þessari viku vegna manneklu. Vonir standa þó til að ekið verði samkvæmt nýja leiðakerfinu frá byrjun næstu viku að sögn Ásgeirs. "Okkur tókst ekki að ráða nógu marga í afleysingar auk þess sem menn hafa hætt hér og haldið til starfa annars staðar," segir Ásgeir. "Nýja leiðakerfið kallar einnig á eilitla fjölgun stöðugilda sem okkur hefur ekki tekist að mæta." Forsvarsmönnum Strætós hefur borist nokkur fjöldi athugasemda við nýja leiðakerfið. Stjórn fyrirtækisins tekur afstöðu til þessara erinda á fundi sínum á föstudag. "Málin verða skoðuð í heild sinni og síðan verður tekin afstaða til þess hvort og þá hverju breyta eigi," segir Ásgeir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×