Erlent

Vilja að einhver sæti ábyrgð

Ár er liðið frá einhverjum skelfilegustu atburðum rússneskrar nútímasögu, þegar hundruð barna voru drepin í árás hryðjuverkamanna á skóla í Beslan. Fulltrúar mæðra sem þar misstu börn sín hittu Pútín Rússlandsforseta í dag. Ljótar myndir vöktu óhug um allan heim: börn sem flýðu tsjetsjenska hryðjuverkamenn sem sýndu enga miskunn í barnaskólanum í bænum Beslan. Hryðjuverkamennirnir hertóku skólann og héldu honum í þrjá daga þar til hersveitir réðust á skólann og frelsuðu gíslana. 330 féllu í skotbardaganum sem fylgdi, meirihluti þeirra börn. Nú er búið að byggja nýjan skóla, en ættingjar þeirra sem létust eru enn reiðir og sárir. Þeir telja rússneska herinn bera ábyrgð á því hversu illa fór, en enginn hefur verið dreginn fyrir dóm nema eini hryðjuverkamaðurinn sem lifði af. Fulltrúar mæðra þeirra barna sem þarna dóu hittu Pútín Rússlandsforseta í Kreml í dag, ári og degi eftir að umsátrið hófst. Pútín sagði ekkert ríki geta tryggt algjörlega öryggi borgara sinni og benti á hryðjuverkin í New York, á Spáni og í London því til sönnunar. Hann sagði þó að þetta væri vissulega engin afsökun hefðu menn gert mistök við aðgerðirnar. Hann lofaði rannsókn og refsingu þeim til handa sem hana ættu skylda. Mæðurnar sögðust ánægðar með þau orð en þær tryðu engu fyrr en framkvæmd fylgdi orðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×