Innlent

Læknar sviptir án kæru

Landlæknisembættinu bárust 243 kærur og kvartanir vegna meintra læknamistaka á síðasta ári, að sögn Matthíasar Halldórssonar aðstoðarlandlæknis. Um þriðjungur kærumála leiðir til frekari aðgerða. "Rannsóknir í alvarlegri málum þurfa sinn tíma." Tveir læknar voru sviptir lækningaleyfi á árinu, ekki vegna læknamistaka. Sjaldgæft er að læknar séu sviptir leyfi vegna einstakra læknamistaka, segir Matthías. Einn til þrír læknar missi leyfi árlega. Hann segir sviptingu læknaleyfa oftast vera vegna óreglu, elliglapa eða því um líku. Verði læknar uppvísir að mistökum fái þeir áminningu áður en leyfi sé afturkallað. "Einstaka óhappatilvik sem upp koma eru ekki nægileg til að svipta menn lífsviðurværinu," segir Matthías. Landlæknisembættinu bárust 243 kærur á síðasta ári en um 230 árið á undan. Rannsókn er ekki lokið á öllum þeim kærum sem bárust: "Rannsókn í alvarlegri málum, þar sem mjög gaumgæfilega þarf að athuga málin, þarf sinn tíma. Þetta er svipað og gerist í öðrum löndum, oft erfitt að staðfesta að mistök hafi orðið og það gerist reyndar sjaldnast." Matthías segir nokkuð um að kærur sé settar fram í von um fjárhagsbætur. "Munurinn á læknamistökum og óhappatilvikum er til staðar," segir Matthías. "Undir mistök flokkast það sem á ekki að geta komið fyrir. Óhappatilvik geta verið margs konar, til dæmis þegar tæki bila. Það er alltaf áhætta sem í sumum tilvikum verður ekki komist hjá og ekki er hægt að álasa neinum fyrir. Hafi hins vegar verið ranglega staðið að læknisverki með hirðuleysi eða gáleysi sem á ekki að eiga sér stað, þá flokkast það undir læknamistök."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×