Sport

Meistarar í þriðja sinn

New England Patriots tryggði sér meistaratitilinn í ameríska fótboltanum í fyrrinótt annað árið í röð og þriðja skiptið á fjórum árum þegar liðið bar sigurorð af Philadelphia Eagles, 24-21, í 39. leiknum um Ofurskálina í Jacksonville. Fyrirfram var búist við því að New England myndi verja titil sinn nokkuð auðveldlega en meistararnir þurftu svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum. Terrell Owens, aðalhlaupari Eagles, sneri aftur eftir sjö vikna fjarveru vegna fótbrots og gaf öllum læknum langt nef, læknum sem sögðu að hann gæti aldrei spilað þennan leik. Owens átti fínan leik en hann átti samt ekkert svar við stórkostlegum leik Deion Branch hjá New England sem greip ellefu bolta og hljóp alls 133 metra með boltann. Branch var valinn maður leiksins að honum loknum og skyggði algjörlega á Tom Brady, leikstjórnanda New England, sem hafði verið valinn maður leiksins í báðum sigurleikjum liðsins í Ofurskálinni árin áður. Brady átti samt góðan leik og skilaði þremur sendingum sem gáfu snertimörk. "Fyrir mér þá tilheyrir þessi titill leikmönnunum. Þeir stóðust allar atlögur þetta árið, ár sem var mikil áskorun. Þeir spiluðu frábærlega allt árið, voru bestir í stórleikjunum og áttu sigurinn svo sannarlega skilið," sagði Bill Belichick, þjálfari New England, sem hefur skipað sér á bekk með helstu þjálfaragoðsögnum í sögu ameríska fótboltans. Tom Brady, leikstjórnandi New England, hrósaði Deion Branch sérstaklega eftir leikinn. "Þvílíkur leikur og þvílíkir andstæðingar. Við komumst ekkert áleiðis í fyrsta leikhlutanum en síðan opnaði Deion Branch þetta fyrir okkur með frábærri frammistöðu," sagði Brady. Meistarar síðustu tíu ára 2005 New England Patriots 2004 New England Patriots 2003 Tampa Bay Buccaneers 2002 New England Patriots 2001 Baltimore Ravens 2000 St. Louis Rams 1999 Denver Broncos 1998 Denver Broncos 1997 Green Bay Packers 1996 Dallas Cowboys



Fleiri fréttir

Sjá meira


×