Sport

Engar breytingar hjá meisturunum

Tveir leikir eru á dagskrá Landsbankadeildar karla í knattspyrnu í dag og hófust þeir kl. 14.00. Íslandsmeistarar FH taka á móti nýliðum Þróttar í Kaplakrika og Fram mætir ÍA á Laugardalsvelli. Hægt er að fylgjast með beinni lýsingu á leikjunum hér á Vísi. Íslandsmeistarar FH gera engar breytingar á sínu liði frá síðasta leik en nokkrar breytingar eru hjá Þrótturum. Til að mynda er Þórarinn Kristjánsson ekki í hópnum en hans stað í byrjunarliðinu tekur Jozef Maruniak. Þá er Kristinn Hafliðason í byrjunarliði Þróttar í fyrsta sinn og leikur ekki langt frá Daníel bróður sínum á miðju Þróttar. Framarar byrja af meiri krafti gegn Skagamönnum en fáir áhorfendur mættir á Laugardalsvöll. Athygli vekur að Bjarki Guðmundsson er kominn í mark Skagamanna. Ekki er hægt að segja að Bjarki hafi byrjað vaktina vel því hann gerði mistök í marki ÍA og missti boltann undir sig þegar Heiðar Geir átti sendingu. Reynir Leósson bjargaði á marklínu. Bjarki er nýgenginn til liðs við ÍA eftir að Þórður Þórðarson þurfti að ljúka ferlinum óvænt vegna veikinda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×