Erlent

Slepptu sænskum borgara úr haldi

Minas al-Yousifi, sænsk-írökskum stjórnmálamanni sem rænt var í Bagdad í janúar, var sleppt úr höndum mannræningja í dag. Yousifi hafði snúið aftur til Íraks fyrir tveimur árum í kjölfar falls stjórnar Saddams Husseins, til þess að endurreisa flokk sinn, Kristinlega demókrata, en var rænt í byrjun árs af herdeild írakskra uppreisnarmanna. Herdeildin krafðist fjögurra milljóna dollara, um 240 milljóna króna, í lausnargjald og að Bandaríkjaher hyrfi frá Írak, að öðrum kosti yrði Yousifi afhöfðaður. Síðar lækkuðu mannræningjarnir lausnargjaldskröfu sína í 400 þúsund dollara, um 24 milljónir króna, en ekki er ljóst hvort fjölskylda hans greiddi þá upphæð. Yousifi flúði til Svíþjóðar fyrir 20 árum undan ofsóknum Saddams Husseins og þar hefur fjölskylda hans búið áfram til þess að sinna fjölskyldufyrirtækinu í Jönköping.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×