Erlent

Mikil breyting í Miðausturlöndum

Meiri háttar breyting til batnaðar hefur orðið í samskiptum Ísraels og Palestínu síðustu vikurnar. Ofbeldisverkum hefur snarfækkað og í fyrsta sinn í fjögur ár eru menn vongóðir um friðarhorfur. Þetta virðist nánast of gott til að vera satt. En það er nú engu að síður staðreynd að síðan Mahmoud Abbas tók við embætti forseta í Palestínu hefur mjög margt breyst til batnaðar og hlutirnir virðast farnir að rúlla. Abbas tók af skarið skömmu eftir embættistöku sína og sendi fyrst tvö þúsund palestínska hermenn út á götur herteknu svæðanna til þess að hafa hemil á og koma í veg fyrir árásir öfgahópa. Að því búna hóf hann samningaviðræður um vopnahlé við þessa sömu öfgahópa og hefur haft það erindi sem erfiði að árásum hefur fækkað til muna á Gaza. Í dag var svo komið að Ísraelsstjórn að koma til móts við þennan friðarvilja Palestínumanna. Ísraelski herinn fékk um það skýr fyrirmæli að halda að sér höndum á herteknu svæðunum. Það er meiri háttar stefnubreyting því herinn hefur að undanförnu skilið eftir sig sviðna jörð og varla farið í manngreinarálit í árásum sínum. Gidon Meir hjá ísraelska utanríkisráðuneytinu segir að á næstu dögum verði breytingar á starfsaðferðum hersins. „Á þeim svæðum þar sem stjórnvöld Palestínu munu axla ábyrgð á að stöðva hryðjuverk verður hvort sem er engin þörf fyrir aðgerðir Ísraelsmanna,“ segir Meir. Það slær á gleði manna að í dag voru birt úrslitin í eins konar sveitastjórnarkosningum á Gaza. Hamas-samtökin unnu stórsigur og fengu 65 prósent atkvæða á móti 22 prósentum atkvæða Fatah-samtaka Abbasar. Þetta eru slæmar fréttir fyrir Vesturlönd sem hafa úthrópað Hamas sem hryðjuverkasamtök. Jafnframt sýnir þetta glögglega hversu mikils fylgis samtökin njóta meðal Palestínumanna sem er kannski engin furða því Hamas hefur um langa hríð haldið uppi allri félagslegri þjónustu fyrir íbúa herteknu svæðanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×