Innlent

Vitnisburðir lagðir til hliðar

Hæstiréttur ómerkti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur gegn Jóni Árna Rúnarssyni, fyrrum skólastjóra Rafiðnaðarskólans. Héraðsdómur hafði úrskurðað manninn sekan um skjalafals og fjársvik og dæmt hann til þriggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar. Í úrskurði Hæstaréttar kemur fram að héraðsdómari hafi lagt vitnisburði til hliðar og ekki lagt mat á sönnunargildi þeirra og því ekki tekið rökstudda afstöðu út frá þeim. Jón Árni var ákærður fyrir að hafa dregið sér fé í starfi sínu sem skólastjóri Rafiðnaðarskólans, alls 28 milljónir á árunum 1994-2001. Einnig var hann ákærður fyrir skjalafals og fjársvik þegar hann sem skólastjóri Viðskipta- og tölvuskólans á að hafa svikið skólann um 300 þúsund krónur. Jón vitnaði fyrir Héraðsdómi að honum hefði þótt rétt og heimilt að taka sér laun samkvæmt launasamningi, sem í gildi hefði verið á milli hans og Eftirmenntunar rafeindavirkja, samhliða launasamningi við yfirmenn Rafiðnaðarskólans. Sá framburður var ekki tekinn til greina í úrskurði Héraðsdóms. Hæstiréttur tók ekki afstöðu til sektar ákærða heldur vísaði málinu í hérað þar sem málið fer aftur á byrjunarreit.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×